Sýnatökur og greiningar á föstum úrgangi fyrir Veitur

ReSource International var í samstarfi við Veitur ohf. um sýnatökur og greiningar í fráveitukerfum, samkvæmt rammasamningi sem tók gildi árið 2025. Um var að ræða umfangsmikið verkefni á sýnatökum á bæði skólpi og föstum úrgangi frá hreinsistöðvum Veitna á höfuðborgarsvæðinu og víðar.

Verkefnið var liður í því að uppfylla skilyrði starfsleyfa og kröfur samkvæmt reglugerðum um fráveitur og skólp og fól í sér sýnatöku og greiningar á skólpi fyrir og eftir hreinsun, sem og vöktun á örverum í viðtökum, t.d. sjó og ferskvatni. Einnig voru framkvæmdar ítarlegar rannsóknir á föstum úrgangi – sandi, fitu og ristarúrgangi – sem fellur til við hreinsun skólps.

ReSource tryggði faglega framkvæmd sýnatöku og vandaða greiningu með aðstoð viðurkenndra rannsóknastofa. Verkefnið er unnið í samræmi við viðeigandi staðla og með áherslu á öryggi, umhverfisvernd og gagnsæi.

Auk skyldumælinga hefur ReSource einnig kortlagt valkvæðar mælingar sem geta stutt við nýtingarmöguleika úrgangs, í samræmi við sjálfbærnistefnu Orkuveitu Reykjavíkur. Þar má nefna tilraunir til að nýta sandúrgang sem byggingarefni og fituúrgang sem hráefni í lífdísil eða jarðgerð.

Þetta  var fjölþætt verkefni bæði hvað varðar reglubundið eftirlit og framtíðarsýn um bætta meðhöndlun og nýtingu fráveituúrgangs og við erum stolt af því að styðja Veitur í því að bæta fráveitustarfsemi á sjálfbæran hátt.

Sýnataka á föstum úrgangi
Published On: 16. 07. 2025.