Dagana 16. og 17. mars er fyrsta alþjóðlega ráðstefnan um byggingar- og niðurrifsúrgang í hringrásarhagkerfinu haldin í Lagoa á Asóreyjum. Ráðstefnan er lokahnykkur Rebuild 17 verkefnisins sem ReSource International hefur tekið þátt í undanfarin ár. Um 115 manns sækja ráðstefnuna, og er að sögn skipuleggjenda afar sjaldgæft að hægt sé að draga slíkan fjölda af meginlandinu á viðburði á Asóreyjum.

Hafliði Eiríkur Guðmundsson umhverfisráðgjafi hjá ReSource er staddur í Lagoa til að halda erindi á ráðstefnunni, kynna sér hringrásar- og sorpvinnsluverkefni á svæðinu, miðla af reynslu ReSource í málaflokknum sem og af ýmsu sem gert hefur verið á þessu sviði á Íslandi. Hann heimsótti í dag Musami, sorpsamlag eyjarinnar Sao Miguel sem rekið er á svipaðan hátt og Sorpa. Þar skoðaði hann gassöfnunina á urðunarstað höfuðborgar Asóreyja, en hún er notuð til að knýja rafmagnsframleiðslu. Einnig kynnti hann sér tilraunir CIMPA með hráefni úr nærumhverfinu, svo sem bananatrefjar, basalt, ananastrefjar og ýmsan úrgang. Starfsmenn CIMPA, Raquel Galante og Rogério Medeiros, sýndu honum líka nýja steypu sem þau eru að þróa sem gæti minnkað kostnað við kælingu og kyndingu á húsnæði.

Rebuild 17 er samstarf ReSource, LREC, rannsóknarstofnunar Asóreyja í byggingarverkfræði, og CIMPA, fyrirtæki sem starfar við efnisfræðirannsóknir. Markmið verkefnisins er að hámarka nýtingu byggingar- og niðurrifsúrgangs á Asóreyjum með hringrásarlausnum. Verkefnið er styrkt af EEA Grants, sjóði sem eflir samstarf EFTA og ESB ríkja á ýmsum sviðum.

Nánari upplýsingar um EES-styrkinn og ráðstefnuna má finna hér.