Reykjavíkurborg valdi að loknu útboði ReSource International, Transition Labs og M/Studio til að gera fýsileikakönnun um hringrásargarð á Álfsnesi. Fyrirtækin munu leggja til leiðir til að þróa lengra iðnaðarvistkerfið sem þróast hefur á síðustu árum á Álfsnesi. Settar verða upp aðgerðaáætlanir og skipulagstillögur sem munu gera hringrásarferla framkvæmanlega á stórum skala. Leiðarljós hringrásargarðsins er að finna úrgangi fyrirtækja og heimila farveg sem hráefni í aðra starfsemi. Þannig er lágmarkað bæði urðun á höfuðborgarsvæðinu og mengun sem sprettur úr línulegu hagkerfi.

Verkefnið skiptist í þrjá hluta:  

  1. Greining auðlindastrauma og mögulegs iðnaðarvistkerfis. 
  2. Samfélagsleg áhrif og ábati fyrir höfuðborgarsvæðið.  
  3. Umsjón, fjármögnun og markaðssetning. 

 Yfirumsjón verkefnisins, verkefnastjórnun og fyrsti verkhluti eru í höndum ReSource International. M/Studio sjá um annan verkhluta og Transition Labs sjá um þann þriðja. 

Öflugri hringrásargarður yrði mikilvæg stoð í því hringrásarhagkerfi sem gert er ráð fyrir í Græna planinu, heildarstefnu Reykjavíkurborgar til 2030 um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Á heimasíðu Græna plansins má sjá frekari lýsingu á verkefninu. 

Um þessar mundir auglýsa Reykjavíkurborg og teymið sem vinnur verkefnið eftir fyrirtækjum og öðrum aðilum, sem hafa áhuga á að vera með starfsemi í hringrásargarðinum á Álfsnesi. Nánar: Hringrásargarður á Álfsnesi